Í lok laugardags

Fór í morgun með troðaranum og var lagður 12 km hirngur upp á heiði, setti merki við 2,5 km (endi ljósalínu) 5 km (milli gíganna á heiðinni og Kýrdalshæðarinnar/Kýrdalshnjúkur) og 7,5 km á móts við endamastur Suðurgilslyftu). Sveigði sporið svolítð í brekkunni undir ljósalínunni og einnig uppi á heiði. Svolítill renningur setti fljótt í sporin á köflum. Síðan var lagður 5 km vestan Strompagía, 5 km skautabraut með ljósalínunni og 1 km byrjendaspor á Leirunni. Svo vel var gert við okkur í dag. Teiknaði kort og reyndi að sýna sem mest af þessu og setti við upphaf sporsins við neðra bílastæði. Þegar ég fór 11:30 var mun færra fólk komið en í gær á sama tíma og hafa eflaust margir talið að það myndi renna í sporin eins og í gær.

Renndi svo uppeftir kl 18. Húsið opið og allir fánar og skilti úti. Fór upp á heiði og sótti km merkin og setti við skáladyrnar, sá sem er fyrstur á morgun þyrfti að setja þau út ef troðaramaður gerir það ekki en ég mun koma slíkri ábendingu til Einars útiverkstjóra. Einnig þar sá sem opnar húsið að setja upp viðeigandi kort / búa til ef þarf og setja upp Íslenska fánann til merkis um að húsið sé opið.

Þóroddur F.


Laugardagur fyrir Páska

Er á leið í Bláfjöll, ætla að reyna að fá lagt lengra spor á heiðinni og bæta merkingar og einnig að reyna að fá æfingahring á Leirunni.

Okkur vantar fleiri stóla í húsið, helst klappstóla ef þú lesandi átt klappstól/a eða koll/a í geymslunni máttu gjarnan grípa þá með.

Þóroddur F.


Fjöldi í Bláfjöllum í dag

Ég tel að 400-500 manns hafi farið á gönguskíði í Bláfjöllum í dag og dreg þá ályktun af því að ég setti 100 miða á bíla skíðagöngufólks þar sem ég greindi frá húsi Ulls og að það væri opið öllu skíðagöngufólki. Ég fór nokkrum sinnum á tímabilinu kl 11-15 út á bílastæðið handan vegarins gengt húsinu og setti miðana undir rúðuþurrku á framglugganum.  Ég spjallaði við talsvert af fólki, meðal annarra forseta Íslands Ólaf Ragnar og Dorrit sem voru að sjálfsögðu að fara á gönguskíði og sjaldan voru færri en tveir í bíl. Þó nokkrir komu í húsið meðan ég var þar, milli þess sem ég skrapp út í sporið.

Ég tel æskilegt að við höfum húsið opið eins og kostur er um helgina og gott að félagsmenn sem verða á svæðinu hafi það í huga og komi þar við, sérstaklega er gott að vita af fóki sem ætlar að vera fram eftir degi og gæti tekið inn fána og skellt í lás. Nokkuð var spurt um áburðarmál og eru margir hæfari en ég til að leiðbeina um þau, en sérstaklega var erfitt að finna réttan áburð fyrir festu framan af degi. Minni ég fólk á að skrifa nafn sitt á "gestablaðið" en fróðlegt er að sjá hve margir nota húsið.

Sjáumst sem flest í Bláfjöllum um helgina.

Þóroddur F.


Munið aðalfundinn 15. apríl. Bláfjöll í dag

Sæl öll.

Fór í Bláfjöll í morgun og þar var fjöldi fólks í sporum, 10 km upp á heiði og 5 km við til suðurs og vesturs frá bílastæðinu á móts við húsið, en engar merkingar voru um sporin og fann ég hvergi skiltin sem útbúin voru af Árna Tryggvasyni og Skíðasvæðinu. Aðeins skiltið með einstefnumerknu var sjáanlegt út við spor. Líklegast virðist vera að einhver hafi sett þau út við spor en síðan hafi þau ekki verið tekin inn að kvöldi og því komin undir snjó.

Ef einhver veit um þau er hann beðinn að láta vita hvar þau eru. Ég dauðskammaðist mín á svæðinu í morgun því merking skíðasproanna er eitt af þvi sem við ættluðum að bæta.

Þóroddur F.


Skíðagöngusögur

Nú er ég búin að fá þrjár sögur í sögusafnið okkar og vanta fleiri.  Sögurnar eru undir hlekknum Skíðagöngusögur

Kv. Vala


Orkugangan 11. apríl 2009

Frá Orkugöngunni 2007 

Tekið af vef Mývatnsstofu Keppnisgjald og tímasetningar eru greinilega ekki alveg á hreinu en við bara bíðum þolinmóð:  

Orkugangan  er almennings skíðaganga sem verður haldin laugardaginn 11. apríl kl. 10:00 og hefst gangan við Kröfluvirkjun í Mývatnssveit. Gengnir verða 60 km og er þetta því lengsta skíðagangan hér á landi.

Mývetningur Íþrótta og Ungmennafélag og Björgunarsveitin Stefán eru framkvæmdaaðilar göngunnar. Gengið verður að mestu um ósnortið land þar sem sjá má margar náttúruperlur sem og svæði sem jarðskjálftar og eldsumbrot hafa mótað og má víða sjá merki um þá orku sem enn býr í þessu svæði.

Leiðin verður troðin fyrir þátttakendur og lagt verður að minnsta kosti eitt spor alla leið. Drykkjarstöðvar verða með  reglulegu millibili þar sem boðið verður upp á orkudrykki og súkkulaði. Allir fá svo súpu og brauð eftir að komið er í mark.

Þátttökugjald er xxxx kr. og er innfalið í því aðgangur að Jarðböðunum við Mývatn eftir gönguna og lokahóf með léttum veitingum sem hefst kl. þar sem veittar verða viðurkenningar og dreginn verður út einn heppinn þátttakandi sem hlýtur utanlandsferð að eigin vali í vinning. Skíðasvæðið við Kröflu verður opið fram eftir degi en þar er togbraut og góð aðstaða til skíðaiðkunar.

Nægt gistirými er í sveitinni og eru sumir ferðaþjónustuaðilarnir með „Orkugöngutilboð“ þar sem í boði er helgarpakki með gistingu og fæði á góðu verði.

Allar nánari upplýsingar og skráning er hjá Upplýsingamiðstöð staðarins í síma 464 4390 eða í netfangið info@visitmyvatn.is og einnig í orkuganga@visitmyvatn.is


Buchgangan: Gerður Steinþórsdóttir

 

Buchgangan 28. mars 2009 og stutt æviágrip Buch, sem stofnaði skíðaskóla á Húsavík.

Það var rok á Reykjaheiði fyrir ofan Húsavík og því gangan færð í Aðalhraun fyrir sunnan flugvöllinn, en hraunið er kjarri vaxið. Þar hafði verið lögð 5 km braut. Þátttakendur voru alls 52 og tóku flestir þátt í 20 km, eða 32 talsins. Fjórir Ullungar voru mættir; Þórhallur Ásmundsson, Vilborg Guðmundsdóttir og Gísli gleðigafi Óskarsson, auk mín. Eiríkur skipstjóri Sigurðsson, sem er Húsvíkingur, var reyndar skráður Ullungur, en ekki alveg sáttur við það. - Töluvert frost var en í  hrauninu var gott skjól og brautin glögg.

Á eftir var kaffi og meðlæti í íþróttahúsinu og þar fór fram verðlaunaafhending. Sævar Birgisson frá Ísafirði var  sigurvegari. Ég spurðist fyrir um Buch sem gangan er kennd við. Hann var Norðmaður og hét Nikulas Buch (1766 - 1806). Hann kom til Íslands um 1790 þegar fyrstu hreindýrin voru flutt hingað til lands. Hann settist að á Húsavík og stofnaði þar fyrsta skíðaskóla landsins. Þá sögu heyrði ég að hann hefði farið upp á Húsavíkurfjall og rennt sér niður af því. Húsvíkingar undruðust mjög að hann skyldi koma standandi niður. Árið 2005 var ákveðið að ein af Íslandsgöngunum yrði á Húsavík. Þá var það að Vilhjálmur Pálsson íþróttakennari kom með þá hugmynd að gangan yrði kennd við Buch.

Þá er Fossavatnsgangan eftir en hún er hápunktur Íslandsgöngunnar.


Í landi Emils: Halla Kjartansdóttir

Halla Kjartansdóttir  sendi okkur þessa grein sem byrtist í siglfirska fréttablaðinu Hellunni árið 2005 eftir ferð hennar með manni sínum Þórhalli Ásmundsyni til Mora árið 2005.  Halla segir okkur frá upplifun sinni á 90km langri hliðarlínunni.

 

 Í landi Emils 

Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að vera boðið að koma með nokkrum heiðurskörlum í Vasa-gönguna í Svíþjóð í vetur.  Ég hafði mjög gaman af þessari ferð. Ég hélt dagbók þessa daga sem ég var í ferðinni og þar sem ritsjóri Hellunnar vissi af því, var hann að ympra á því annaðslagið að ég skrifaði nú smávegis um ferðina.

 

Sunnudaginn 27. febrúar 2005 fórum við af stað til Svíþjóðar, eldsnemma að morgni. Þegar við lentum á Arlanda-flugvelli var mjög kalt og snjóél.  Við hittum Húsvíkingana, sem við ferðuðumst með, bræðurna Ásgeir og Helga Kristjánssyni og Sigurgeir Stefánsson.  Þegar búið var að ná farangrinum þurftum við að ná í bílaleigubíl, sem var nú reyndar 9 manna rútukálfur.  Mér leist nú ekki á það, því búið var að tala við mig um að ég keyrði bílinn frá Sälen á sunnudagsmorgninum. 

En við lögðum svo af stað til Mora.  Þegar við höfðum keyrt í ca. 2 tíma var mannskapurinn orðinn svangur og ákveðið var að stoppa við einhvern veitingastað á leiðinni.  Við fundum veitingastað í einhverjum smábæ en þegar við ætluðum að panta okkur eitthvað, var ekki til neitt af því sem við báðum um.  Við gengum þá yfir á Pizzastað sem var rétt við hliðina, og fengum okkur pizzur.  Þegar búið var að borða héldum við aftur af stað til Mora. Mér fannst svo sniðugt þegar við keyrðum um sveitirnar, að það voru yfirleitt allstaðar rauðmáluð hús, og mér datt í hug að ég væri komin í myndina um Emil í Kattholti.  Það voru svona litlir kofar í kring um húsin, og ég var að spá í hvort það væri til siðs að þegar krakkar í Svíþjóð væru óþekk, væru þau sett út í svona kofa, eins og gert var við Emil.

En þegar við vorum komin til Mora var klukkan farin að nálgast 18.  Allir fengu sér næringu, enda hafði konan sem leigði okkur húsið, skilið eftir fullan ísskáp af allskonar góðgæti.  Hún hafði meira að segja verið svo indæl að baka handa okkur köku og þegar búið var að borða fóru karlarnir að hafa skíðin til og drifu sig svo á skíði.  Ég var bara heima, drakk te og snýtti mér, því ég hafði nælt mér í kvef fyrir ferðina.  Það hefur sjálfsagt verið á tilboði einhversstaðar og sennilega verið ókeypis, og ég þá tekið við því.  Svona er kvenfólkið, alltaf á útsölum. 

Á mánudaginn, þegar allir voru vaknaðir og búnir að borða morgunverð sem rann saman við hádegisverð, var farið í búðarráp.  Við vorum svo vel staðsett að við vorum aðeins nokkrum skrefum frá göngugötunni. 

 Já, ykkur finnst sennilega skrítið að það hafi verið farið í búðarráp þar sem svona margir karlmenn áttu í hlut Ég held ég hafi litið í hvern einasta glugga á leiðinni eftir götunni, eins og kvenna er siður, en það var ekki stoppað fyrr en komið var í Intersport.  Þeir fóru allir með skíðin sín, til að láta steinslípa þau, og að skoða skíðavörur. Aldrei hef ég séð karlmenn staldra svona lengi við í nokkurri verslun.  Það þurfti að skoða áburðinn, sköfurnar, korkana og burstana, eða hvað þetta heitir nú alltsaman, það gæti verið að þá vantaði eitthvað af þessu.  Það voru skoðaðir sokkar, nærföt og straujárn fyrir áburðinn, og bara allt sem tengdist skíðum. 

Svo var haldið áfram að ganga og nú var aftur gengið fram hjá öllum búðargluggunum í götunni og það var farið inn í Fliesberg sem er skíðavöruverslun.  Þar var aftur skoðað allt það sama og hafði verið skoðað í Intersport.  Og ekki var allt búið.  Þegar farið var út úr Fliesberg, var farið í tjaldið, þar sem þeir sem ætluðu í Halv-vasa, sóttu númerin sín og skráðu sig.  Þar snérist allt um skíði líka og þar inni var verslunin Stadium, með fatnað og annað til skíðaiðkunar.  Þar var líka skoðað og mátað.  Og ýmislegt var nú keypt á þessum 3 stöðum.

Aldrei aftur mun nokkur karlmaður sem hefur eitthvað svona hobby, geta sagt mér að konur séu skelfilegar í verslunum, því ég skemmti mér konunglega við að horfa á og fylgjast með þessum körlum versla.  Þeir voru alveg eins og litlir strákar í dótabúð.  En ég kvarta ekki, mér fannst þetta gaman og svo var nú eitthvað keypt handa mér líka.

Á þriðjudagsmorgninum fóru þeir Þórhallur, Sigurgeir og Ásgeir í Halv-vasa.

Það var farið frá Oxberg og við Helgi keyrðum til Hökberg og fylgdumst með þeim fara þar í gegn.  Það var 17° frost þennan dag og það var algert bíó að fylgjast með þeim skeggjuðu þegar þeir stoppuðu við Hökberg til að fá sér bláberjasúpuna, því þeir voru með grýlukerti í skegginu.  Einn t.d. var með svo stórt grýlukerti að hann þurfti að setja það ofaní glasið svo hann gæti drukkið úr því.   En við vorum svo við markið þegar þeir komu í mark og hvöttum þá áfram.

Á miðvikudaginn bættist einn enn í hópinn, Ingþór Bjarnason, og á fimmtudeginum annar, Jörundur Traustason.  Þá var þetta orðinn sjö manna hópur.

Það var farið í bæinn alla dagana og skoðaðar skíðavörur og alltaf gengið fram hjá öllum búðargluggunum, nema með skíðavörunum.  En á fimmtudeginum meðan þeir fóru á skíði, fór ég bara ein í bæinn og skoðaði allar þessar búðir sem við höfðum gengið fram hjá.  Ekki verslaði ég nú mikið, enda ekki ódýrt í Svíþjóð, en bara gaman að rölta um. 

Á föstudeginum var farið að startsvæðinu í Sälen um hádegið.  Þar fóru allir á skíði. Það var frábært.  Ég held ég geti bara farið að æfa skíði, ég á skíðaskó, skíðahanska, skíðavesti og Þórhallur lánar mér skíði og stafi, það eina sem mig vantar eru hæfileikarnir til að standa á skíðunum. 

Laugardagurinn var letidagur.  Allir slappa af og gera helst ekki neitt.  Þeir fóru samt einhverjir með skíðin sín í bæinn til að láta “Valla” 

Aðfararnótt sunnudagsins var vaknað kl. 3:30 því það tekur tímann sinn að taka sig til og komast á staðinn.  Ég þorði ekki að keyra rútuna svo ég fór ekki með.

Fór því bara að þrífa þegar ég var búin  að sofa aðeins meira. Þegar það var búið, fór ég að athuga með herramennina.  Þeir tíndust í markið einn af öðrum og ekki hægt að segja annað en að þeim hafi gengið vel.  Flottir karlar þetta. Helgi og Ásgeir fóru að sækja bílinn og hinir dreyptu á bjór, meðan þeir slökuðu á, gengu frá skíðunum og reyndu að ganga frá sem mestu fyrir morgundaginn.  Svo var farið á kínverskan veitingastað um kvöldið, til að halda upp á það að þeir hefðu komist óskaddaðir í mark. 

Á mánudeginum var vaknað fyrir kl. 6 til að klára að ganga frá dótinu sem eftir var að ganga frá, öllu raðað í bílinn og lagt af stað til Stockholm milli 6:30 -7:00

Stoppað á einum stað á leiðinni til að borða, því einhverjir voru orðnir svangir og svo var bara haldið áfram, tékkað sig inn í flug og sest svo niður og borðað.

Þegar við komum heim kl. 23:45, höfðum við verið á fótum frá kl. 4:45 að íslenskum tíma, þ.e.19 tíma.  Ég tók eftir því þegar ég var að pikka þetta í tölvuna, að við höfum alltaf verið að borða, þar kemur skýringin á því hvers vegna mér fannst ég hafa þyngst þegar ég kom heim.

Ég komst samt að leyndarmáli í þessari ferð.  Það missti einn það út úr sér hvers vegna þeir væru svona áfjáðir í að fara í Vasa-gönguna.  Og vitið þið hvað það er? Það er nefnilega vegna þess að það eru alltaf einhverjir kvenmenn sem ganga líka, og þeir eru svo fallegir kvenmannsrassarnir sagði hann, að maður reynir alltaf að hanga á eftir þeim, og missa ekki sjónar af þeim.

Þessi ferð var frábær að því að mér fannst og vona ég að mér verði boðið að fara einhverntímann aftur með. Ég þakka þessum strákum sem ég fékk að vera samvistum við, kærlega fyrir skemmtilegheitin og vona að ég hafi ekki haft nein letjandi áhrif á þá.  Ég reyndi að láta lítið fyrir mér fara, svo þeir gleymdu að það væri kvenmaður með í hópnum, og svei mér þá ef það hefur ekki virkað, því það voru ótrúlegustu hlutir sagðir og mikið hlegið, skrafað og skeggrætt. 

Takk fyrir mig.

            Halla Kjartansdóttir

   

Konur og karlmennska: Gerður Steinþórsdóttir

IMG_0033  Hér kemur grein sem Gerður Steinþórsdóttir skrifaði í  í tímaritið Útiveru árið 2007.  Gerður er mikil áhuga kona um skíðagöngu og hefur farið í ófáar skíðaferðirnar. 

 

Konur og karlmennska

Nokkur brot úr sögu Vasagöngunnar

Það var á þeim árum sem ég bjó og starfaði í Svíþjóð að ég heyrði sérkennilega sögu um konur í Vasagöngunni miklu. Hún var á þá leið að konum var bönnuð þátttaka í henni en einhverjar létu það sem vind um eyru þjóta, dulbjuggu sig sem karlmenn, settu á sig yfirvararskegg  og gengu þessa níutíu kílómetra löngu leið milli bæjanna Salen og Mora í Dölunum.  Vasagangan er lengsta skíðaganga í heimi og í hugum margra tákn karlmennsku. En sagan um konurnar og táknrænt gildi hennar heillaði mig svo mjög að ég gekk í skíðafélagið Þór í Uppsölum og keypti mér útbúnað með það í huga að fara í Vasagönguna. En aldrei kom snjór og skíðin lágu ónotuð í hálfan annan áratug.

 

Ég er að minnsta kosti nógu gömul

Svo var það fyrir rúmu ári að ég rakst á frásagnir fólks sem var að undirbúa sig undir Vasagöngu. Um páskana í fyrra gekk ég á skíðum yfir Mýrdalsjökul. Þetta var 40 km ganga í tíu stiga frosti, skafrenningi og dimmviðri og tók okkur fjórtán tíma - en mikið óskaplega leið mér vel! Í Strútsskála á páskadagsmorgun las ég bráðskemmtilega frásögn Jóns Gauta, ritstjóra Útiveru, af  Vasagöngunni sem hann hafði farið í mánuði fyrr. Þar segir hann frá Gunnari Sold sem var að fara í fimmtugustu gönguna. Gunnar reyndist fljótari í förum en hann sjálfur og þá hugsaði Jón Gauti að hann væri líklega ekki orðinn nógu gamall!  Þá hló ég og hugsaði að ég væri að minnsta kosti nógu gömul! Lítið samtal í búð í Reykjavík varð til þess að ég ákvað að stefna á Vasagönguna 2007. Það reyndist hins vegar þrautin þyngri. Ég hafði samband við Auði Kristínu Ebenezersdóttur skíðakennara til að fá ráðleggingar. Þess má geta hér að faðir hennar, Ebenezer Þórarinsson frá Ísafirði, var fyrsti Íslendingurinn sem kom í mark í Vasagöngu. Það var árið 1952. - En skíðaskórnir mínir voru úreltir, gömlu skíðin gátu aðeins gagnast sem grjótskíði og útbúnaður fyrir Vasagöngu var ófáanlegur í Reykjavík. Auður sagði mér að ég gæti fengið útbúnað á Ísafirði.

     Þangað fór ég seint í nóvember til að taka þátt í æfingabúðum fyrir væntanlega Vasafara. Námskeiðið var vel sótt og skipulag  til  mikillar fyrirmyndar. Þjálfari var Ashild Höva Sporsheim frá Noregi, en auk þess var áburðarkennsla og fræðsla ýmiss konar. Þarna kynntist ég því að það er mikill munur að ganga á fjöll á skíðum og renna sér eftir brautum. Til þess þarf allt aðra tækni. Svo pantaði ég allan útbúnað hjá Kristbirni Sigurjónssyni, formanni Skíðafélags Ísfirðinga. Hann er  brennandi áhugamaður um skíðaíþróttina og rekur verslun með skíðaútbúnaði. Í janúar var ég komin með útbúnaðinn í hendur og farin að æfa í Bláfjöllum í tveggja kílómetra langri braut!

 

Með krafta í kögglum

Seint í janúar hélt ég á skíði til Austurríkis með Bændaferðum og þar hitti ég Vasafara.  Meðal þeirra var Guðrún Helga Friðriksdóttir úr Aðaldal sem fór í Vasagönguna 2004. Hún sagði mér að hún væri fimmta íslenska konan sem hefði farið í Vasagönguna en einhverjar hefðu farið oftar en einu sinni. Frásögn hennar fannst mér sérstök. "Ég gerði þetta bara fyrir hann Halla," sagði Guðrún og átti við eiginmann sinn, Harald Karlsson. "Ég var orðin svo leið á þessum æfingum," bætti hún við. "Og hvar æfðuð þið ykkur?" spurði ég. "Það var nú mest í túninu heima," sagði Guðrún. "En ég vissi að ég hafði kraftana og ég ýtti mér mestalla leiðina," bætti hún við. Hún sagði mér að það hefði verið draumur Halla í hálfa öld að fara í Vasagönguna. Svo fékk ég skýringuna á einstökum kröftum hennar. Haraldur er einn aðalhleðslumaður þjóðarinnar, reisir grjótveggi og Guðrún vinnur með honum í því. Síðar átti ég eftir að lesa að mestu Vasagöngumenn Svía fyrrum  voru skógarhöggsmenn. Það nægir ekki að geta gengið eða hlaupið, það þarf að vera með sterka arma til að ýta sér áfram.

     Það var lítill snjór í Austurríki og við þurftum að fara með lest til hærri staða en ég æfði eftir því sem tíminn leyfði, gekk 240 km alls, mest 45 km einn daginn. Þá vissi ég að ég kæmist að minnsta kosti Hálft - Vasa. Einnig lærði ég að bera áburð undir skíðin en það er mikil kúnst og krefst reynslu og þjálfunar. Ég lærði að hitastig við frostmark er alveg vonlaust dæmi og átti ég eftir að súpa seyðið af því síðar.

 

Gopshusgarden

Það  þurfti að panta flug til Svíþjóðar og gistingu með fyrirvara, í reynd áður en ég komst á skíðin. Mér hafði verið ráðlagt að fara í Hálft - Vasa, en einnig hvött til að fara í heilt Vasa, en um sjö mismunandi göngur eða keppnir er að ræða þá tíu daga sem Vasahátíðin stendur yfir, m.a. þrjátíu km kvennagöngu, en enginn minntist á hana við mig.  Þar sem ég var svo tvístígandi ákvað ég að vera alla tímann á staðnum því að Hálft Vasa var þriðjudaginn 27. febrúar en heilt sunnudaginn 4. mars. Ég átti pantaða gistingu á Gopshusgarden, sem liggur milli Mora og Salen og kom þangað sunnudagskvöldið 25. febrúar. Ingimar húsráðandi beið mín á hlaðinu. Þarna var gott að dvelja, persónulegt og hlýlegt andrúmsloft. Í Gopshusgarden voru íslensk hjón, Bergþóra Baldursdóttir og Hjörleifur Þórarinsson, sem voru komin til að taka þátt í Hálfu Vasa. Hjörleifur er einn fimm bræðra frá Eiðum, sem hafa farið í Vasagöngu frá 2004 og halda úti heimasíðu um ferðir sínar. Bergþóra hafði farið í Hálft - Vasa í fyrra og miðlaði af reynslu sinni. Ég ákvað að fara með þeim í Hálft -Vasa. Nú kynntist ég því að það er vonlaust að vera ein á ferð, það er nauðsynlegt að hafa að minnsta kosti bílstjóra.

    Daginn fyrir Hálft -Vasa gekk ég á skíðum síðasta legginn frá Eldris til Mora. Áður en komið er í markið í Mora liggur brautin fram hjá fagurri kirkju og við hlið hennar er listasafn með verkum eins merkasta málara Svía, Anders Zorn. Hjá markinu er svo skíðasafnið og þar leit ég inn. 

 

Fyrsta konan  í Vasagöngu

Það er Anders Pers, ritstjóri Vestmanslands Lans Tidning, sem er faðir Vasagöngunnar. Hann skrifaði sögulega grein 10. febrúar 1922 þar sem hann varpaði fram hugmyndinni um Vasagöngu milli Salen og Mora. Daginn eftir birtist greinin aftur í Dagens Nyheter og  féll í svo frjóan farveg  að fyrsta Vasakeppnin var haldin rúmum mánuði síðar, þann 19. mars. Hún átti að vera "ett mandomsprov" í minningu Gustav Vasa. Voru þátttakendur í fyrstu keppninni 119 talsins.

     Anders Pers byggði á 500 ára gamalli sögn. Á þeim tíma heyrðu Svíar undir Danakonung. Gustav Vasa, aðalsmaður frá Uppsölum, vildi að Svíar gerðu uppreisn gegn konungi og treysti á stuðning hinna harðgerðu Dalakarla.  Honum tókst þó ekki að sannfæra þá og hélt frá Mora norður á bóginn. Þegar Dalakarlarnir fréttu af miklu blóðbaði í Stokkhólmi snerist þeim hugur, sendu tvo bestu skíðamenn sína á eftir Gustav Vasa og náðu honum í Salen. Svíar unnu sigur á Dönum í stríði sem stóð í rúm tvö ár og  Gustav Vasa varð konungur. - Yfir markinu í Mora stendur: "I faders spar - för framtids segrar."

     Í safninu er mynd af Margit Nordin sem er fyrsta konan sem fór í Vasagöngu. Það var árið 1923. Margit var íþróttakennari. Stuttu síðar ákvað stjórnin að konur fengju ekki að taka þátt  í Vasagöngu.  Undir myndinni af Margit stendur einnig að engin kona hafi farið aftur í Vasagönguna fyrr en 1981.  Þetta eru 58 ár. Ótrúlegt í samfélagi sem kennir sig við jafnrétti! Í safninu skoðaði ég skíði og útbúnað sigurvegara og myndbrot úr fyrri Vasagöngum áður en við þrjú héldum til Gopshus í kvöldmat.

 

Í Hálfu- Vasa

Ég leit á Hálft - Vasa (45 km) sem æfingu og reynslu  sem ég gæti byggt á. Allir höfðu ráðlagt mér að láta fagmenn smyrja skíðin og við þrjú fórum í Intersport við Kirkjugötu í Mora og greiddum sem samsvarar átta þúsund íslenskum krónur fyrir smurningu. Markmiðið hjá mér var að að komast í mark  en fyrir aðra er "Vasaloppet" keppni. "Lopp" merkir hlaup eða keppni, en sjálf nota ég orðið ganga sem er líklega rangnefni.  Nokkrir Íslendingar fóru í Hálft-Vasa  til að komast framar í aðalkeppninni, en þá er þátttakendum raðað í  tíu flokka, fremst er elítan en almenningur aftast.

     Í Hálfu-Vasa er hægt að leggja af stað á  milli klukkan níu og hálftíu og tíminn er rýmri en í Vasa, sjö klukkustundir en tólf í heilu.

     Upphafið í Hálfu- Vasa var sögulegt hjá mér. Við vorum mætt til leiks hálftíma fyrr. Þá uppgötvaði ég að ég hafði gleymt tímamælinum á Gopshusgarden og án hans var ég úr leik. Ég ákvað því að fá lánaðan bíl þeirra hjóna og sækja mælinn. Á  leiðinni til baka var búið að loka veginum og skíðafólkið streymdi yfir. Þegar klukkan var 9.15 steig ég út úr bílnum til að spyrjast fyrir um hvenær vegurinn yrði opnaður. "Þegar skíðafólkið er farið yfir, " var svarið. " En ég er að fara í gönguna," sagði ég og leit í kringum mig, "getur einhver komið mér þangað?" Eftir nokkra stund gaf  lögregluþjónn sig fram og sagðist skyldi keyra mig. Ég lagði bílnum, tók mittistöskuna mína, hanska og  húfu og steig upp í lögreglubílinn. Þá voru tíu mínútur þar til hliðinu yrði lokað. Ég tók niður skyggnið fyrir ofan framsætið til að sjá mig í spegli á meðan ég hagræddi húfunni. "Þú lítur vel út, " sagði lögregluþjónninn kankvís, miðaldra maður, þéttur á velli.

     Þegar inn á svæðið kom sá ég hvergi skíðin mín. Ég horfði örvæntingarfull í allar áttir og spurði: "Hafið þið séð skíði?" Og einn svaraði: "Það eru rauð skíði þarna uppi við grindverkið." Ég hljóp eins hratt og ég gat, smellti skíðunum á mig og heyrði á hátalaranum að röddin sagði að fimm mínútur væru eftir. Ég tók stefnuna, sá að þeir voru að leggja netið niður sem markaði göngubrautina og farnir að rúlla því upp. Ég ákvað að fara yfir netið þar sem það lá á jörðinni, flækti annað skíðið í því en maður kom mér til hjálpar og í gegnum hliðið fór ég, leit á klukkuna og sá að hún var nákvæmlega hálftíu. Þar skall hurð nærri hælum! Ég leit aldrei aftur. Það voru fáir á ferli og þægilegt að skíða. Ég tók eftir blindri konu með leiðsögumann sem gekk á undan og talaði við hana í hljóðnema. Henni mun ég aldrei gleyma. Blindu konuna sá ég aftur á næstu stoppistöð. Hvílík hetja.

     Ég stoppaði við drykkjarstöðvarnar þrjár, fékk mér bláberjasúpu og bollu og lét líta á skíðin. Stundum fannst  mér gangan erfið, stundum léttari en allra síðasti spottinn var léttastur. Ég var samt þreyttari nú en í Austurríki þegar ég hafði farið sömu vegalengd. Við markið í Mora hitti ég þrjá Íslendinga, Eirík Sigurðsson, Karl Guðlaugsson og Óskar Jakobsson,  sem fögnuðu mér. Þeim hafði öllum gengið vel og unnið til þess að komast miklu framar í aðalkeppninni.  Þá var að setja skíðin í geymslu og fara með rútu í sturtu í skóla og svo að finna Bergþóru og Hjörleif. Ég sótti líka diplóm á skrifstofuna.

      Í Gopshusgarden var glatt á hjalla um kvöldið.  Við borð í miðjum matsalnum sat hópur fólks og hafði einn maður orðið allt kvöldið. Hann var við aldur, boginn í baki en fullur af lífskrafti. Hann hafði greinilega gaman af að segja frá og talaði hátt. Það kvisaðist að hann ætti að baki margar Vasagöngur. "Heldurðu ekki að gamli karlinn hafði farið fram úr mér," sagði Borghildur við mig og átti ekki orð til að lýsa vanþóknun sinni. 

     Morguninn eftir talaði ég við hann. Hann hafði farið tuttugu og fjórum sinnum í Vasa og sex sinnum í Hálft. Menn höfðu kvartað undan þungu færi en hann átti leynivopn, áburð sem hann hafði kynnst  í Osló 1968. Það var hætt að framleiða áburðinn en hann átti svolítið eftir. "Og rennslið var gott," sagði Yngve Johannsson. Hann var þarna með vinkonu sinni og ekki af baki dottinn.

 

Breytileg veðurspá

Það lofaði ekki góðu að ég hafði enga matarlyst. Ég hef viljandi forðast alla orkudrykki og orkufæði sem mjög er  mælt með í löngum og erfiðum ferðum. Nú  ákvað ég að drekka prótenríkan drykk í þrjá daga fyrir hina löngu göngu. Daginn eftir fóru þau hjón til Íslands og ég var eini Íslendingurinn í Gopshusgarden og þurfti nú að hugsa hvernig ég kæmist til Salen nóttina fyrir gönguna löngu. Úr þessu rættist. Eiðafjölskyldan bjó rétt hjá og þar var eitt pláss laust í bíl. Næstu þrjá daga kannaði ég brautina og var búin að fara 98 km þegar stóri dagurinn rann upp. Yfir áttatíu Íslendingar höfðu skráð sig til þátttöku en ekki er mér kunnugt um hve margir mættu til leiks í Vasa, sé hins vegar að 44 komust í mark. Nokkur umræða hafði verið um veður þennan dag. Á þriðjudag var spáð að það yrði fjögurra  stiga frost og sólskin, sem sagt frábært veður. Veðurspáin breyttist þegar nær dró. Á föstudag fór ég með skíðin í smurningu eins og áður og ákvað að láta sérfræðingana sjá um alla smurningu. Ég gæti stoppað við drykkjarstöðvar og látið smyrja skíðin.

 

Að kynnast reipinu

 Ég var sótt klukkan hálffjögur að morgni 4. mars. Mikil umferð var á leiðinni og á tímabili var vegurinn upplýstur með blysum sem var tilkomumikil sjón. Við vorum flest í almenningi og þangað fórum við með skíðin til að marka okkur bás og héldum síðan í bílana aftur. Hálftíma áður en gangan hófst fórum við með poka okkar með þurrum fötum merkt rásnúmeri og komum þeim fyrir í gámi. Þarna var múgur og margmenni en um 15.000 manns var skráð í gönguna. Ég var svo lengi að finna kvennagáminn að þegar ég kom inn á svæðið var upphitun lokið. Ég hefði aldrei getað fundið skíðin mín aftur nema af því að Eiðafjölskyldan var með hárbönd með íslenska fánanum. Ég rétt komst á skíðin og heyrði í hátalara að sagt var að hitastig væri mínus tvær gráður. Mér fannst samt svalt þar sem ég stóð þarna í morgunsárinu og svo mjakaðist fylkingin af stað. Æ, skíðin runnu ekki almennilega, fannst mér. Eftir nokkra stund tók við hin fræga brekka upp í  530 m hæð. Ég var búin að hlusta á svo marga tala um hana. "Passaðu stafina, haltu þeim nálægt þér, annars gæturðu týnt þeim eða þeir brotnað." Mér fannst ganga vel upp brekkuna. Ég reyndi að vera í takt við þann sem var á undan mér þá og þá stundina. Ég sá að sumir voru á hausnum. Uppi á brekkunni leit ég á klukkuna. Það var liðin nákvæmlega klukkustund síðan við lögðum af stað. Það þótti eðlilegt. Ég vissi að mýrarnar tækju við. Ég var búin að fara þennan legg fram og til baka, en hvað blasti við? Ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum. Framundan voru engin spor, bara krapi og slabb. Það var ekkert rennsli og ekkert grip. Ég tók þá ákvörðun strax að stoppa í Smagan eftir um ellefu kílómetra og láta smyrja skíðin. Þegar þangað kom stillti ég mér upp í röð en þarna var stór hópur af fólki sem beið. Aðrir stóðu hjá og smurðu sín skíði sjálfir. Ég leit ekki á klukkuna en beið þolinmóð eftir þjónustu. Þegar röðin kom að mér sagðist maðurinn ekki hafa tíma til að hjálpa mér, bar undir gulan áburð og sagði mér að halda áfram. Skíðin voru ekkert betri og nú leit ég á klukkuna. Ég hafði beðið hér í hálftíma. Nú sá ég fram á að geta ekki stoppað aftur og enga bót fengið og taldi að þetta væri sá  hálftími í lífi mínu sem ég hefði varið verst!   Í Mangsbotarna fékk ég mér hressingu og hélt áfram. Í Risberg eftir 35 km var verið að tala í hátalara þegar ég renndi að en ég greindi ekki samhengið.  Þarna var  þyrping af fólki.  Ég mjakaði mér í gegn og þá blasti við mér maðurinn með reipið.  Reipið þýddi að ég var fallin á tíma. Ég reyndi að tala við manninn en hann benti mér á klukkuna sem var orði 13.18 og  í sömu andrá kippti kona af mér tímamælinum. Ég hafði ekki vitað hvort ég kæmist gönguna á enda, hafði ákveðið að hætta ef ég yrði örmagna en það hafði aldrei hvarflað að mér að þessar aðstæður kæmu upp.  Mér var vísað á rútu og hélt þangað. Hún var full af fólki og von á fleirum. Rétt á eftir sá ég Guðrúnu Jóhannsdóttur frá Isafirði og hún var jafn niðurdregin og ég þótt hún segði færra. Ég nagaði mig í handabökin að hafa ekki tekið með mér áburð.  Ekið var með okkur til Mora þar sem við fórum í sturtu.

 

Reynslumiklir Vasafarar

Á leiðinni úr sturtu ræddi ég við sænska konu. Hún sagði mér að hún hefði farið tuttugu sinnum í Vasagöngu, tvisvar hefði hún þurft að hætta á leiðinni, núna og árið 1999. Þetta hefðu verið verstu aðstæður. Ég spurði hana út í sögu kvenna í Vasagöngu og hún sagðist þekkja konu sem hafði dulbúið sig sem karlmann. Mér þótti það alveg stórkostlegt og tókst öll á loft. Við ræddum einnig um þá konu sem oftast hefur farið í Vasagöngu, reyndar í það sem kallast Opin spor. Hún heitir Berit Brandt og hefur farið 28 sinnum, öll árin sem sú ganga hefur verið farin. Í viðtali sem ég las við hana miðlar hún af reynslu sinni. Hún sagðist ganga 500 km fyrir hverja keppni, hún ráðlagði fólki að nota aldrei nýjan búnað og sjálf borðaði hún pönnukökur, makkarónur og hrísgjónagraut vikuna fyrir gönguna.

    Um hálfsexleytið  þetta kvöld beið ég við markið með nokkrum  úr Eiðafjölskyldunni eftir að Anna Kristín Sigurpálsdóttir kæmi í mark. Árangur hennar var glæsilegur. Síðan fórum  við á krá þar sem sátu nokkrir íslenskir keppnismenn við eitt borðið, þeirra á meðal Hólmfríður Vala Svavarsdóttir, en hún var að fara í Vasa í annað skiptið. Hana hafði ég ekki séð áður en lesið um á boggsíðu eiginmannsins, Daníels Jakobssonar formanns Skíðasambandsins.

     Sumir fara einu sinni á ævinni í Vasagöngu en aðrir gera það að lífsstíl. Í Gopshusgarden voru sjö Berlínarbúar sem koma ár eftir ár. Einn þeirra talaði sænsku og átti hús í Smálöndunum. Þeir hafa þann sið að skála í kampavín að kvöldi Vasagöngunnar og brugðu ekki út af þeim vana  þótt aðeins einn þeirra hefði komist í mark að þessu sinni. Mér var boðið að skála við þá og við ákváðum að stefna á Opið spor að ári. (Sjá grein Sverris Stephensen í Útiveru)

 

Elin Ek hinn raunverulegi sigurvegari

Daginn eftir sat ég á kaffihúsi og las Mora Tidning. Á forsíðu var mynd af ungri konu með sigurkrans um hálsins.  Hún hallaði höfðinu aftur með lokuð augu og hló, skíðin í annarri hendi og stafirnir í hinni. Fyrir ofan myndina stóð stórum stöfum "Enastaende, Elin". Undir myndinni er sigurvegarinn Oskar Svard beðinn afsökunar en Elín Ek frá Mora sé hinn raunverulegi sigurvegari Vasagöngunnar í ár, sem haldin sé í 83. sinn. Færið í ár hafi verið þungt og dregið úr hraða keppenda, en Elín hafi komið rúmlega fjórum mínútum á eftir sigurvegaranum í mark og  aldrei hafi munað jafnlítlu.

     Í blaðinu er fjalla um Vasagönguna á þrjátíu blaðsíðum og er þar mikinn fróðleik að finna.  Sigurvegarinn frá í fyrra, Daniel Tynell, átti við veikindi að stríða og mætti ekki til leiks. Í blaðinu mátti lesa fallega frásögn af Oskar Svard og Jerry Ahrlin, sem urðu númer eitt og tvö í keppninni. Þeir eru vinir og hafa æft saman. Þegar þrír kílómetrar voru í mark spurði Oskar hvort þeir ættu að deila sigrinum en Jerry vildi að þeir kepptu um hann. Það voru tvær sekúndur sem skildu þá að í markinu.

     Í Mora Tidning var listi yfir alla sem komust á leiðarenda og tími þeirra gefinn upp. Ég sá að 10176 karlar höfðu  komist í mark og 849 konur en um 15000 þátttakendur voru skráðir. Aldrei hafa jafnmargir þurft að hætta á leiðinni.  "Vasagöngunnar 2007  verður minnst sem hinnar erfiðustu eftir að plastskíðin komu til sögunnuar," mátti lesa í blaðinu. 

     Þegar til Íslands kom grennslaðist ég frekar um íslensku konurnar. Mér var bent á að hafa samband við Guðmund Rafn Kristjánsson á Ísafirði sem hefði sérhæft sig í Vasagöngum og fá upplýsingar hjá honum. Guðmundur Rafn lét mig einnig hafa upplýsingar um tengsl kvennanna við aðra Vasafara. Af þeim má sjá að skíðaíþróttin liggur í fjölskyldum eins og svo margt annað. Eiginmenn kvennanna, bræður, feður og mágar eru einnig Vasafarar.

 

 

Brotið blað í þátttöku íslenskra kvenna

Þótt færið væri slæmt í ár var brotið blað í þátttöku íslenskra kvenna; sex komust í mark, þar af fimm í fyrsta sinn. Vala eða Hólmfríður Vala Svavarsdóttir var fyrsta konan sem fór í Vasa árið 1996, en hún er frá Ólafsfirði, næstu tvö árin fór Bryndís Stefánsdóttir frá Akureyri, Guðrún Pálsdóttir frá Siglufirði fór 1999 og  2000, Alda Kristjánsdóttir, sem býr í Svíþjóð hefur farið oftast, alls fjórum sinnum;2002-2004 og 2006, Guðrún Helga Friðriksdóttir úr Aðaldal árið 2004 og Guðfinna Hreiðarsdóttir, Ísafirði, í fyrra. Konurnar sem bættust við í ár eru Auður Yngvadóttir Ísafirði, Anna Kristín Sigurpálsdóttir, Reykjavík, Sandra Dís Steinþórsdóttir,  Rannveig Halldórsdóttir og Emelía Þórðardóttir, allar frá Ísafirði. Auk þess hafa nokkrar íslenska konur farið í Hálft-Vasa og Alda Kristjánsdóttir hefur t.d. farið sjö sinnum í Kvennavasa (Tjej-Vasan).

     Alls hafa ellefu íslenskar konur komið í mark í Vasagöngu eftir 90 km göngu. Af þeim eru flestar frá Ísafirði enda er mikill kraftur þar í skíðaíþróttinni og nægur snjór en skíðasnjór fer að verða hreinn munaður.


Orkugangan í þriðja sinn

Frá Orkugöngunni 2007 

Tekið af vef Mývatnsstofu Keppnisgjald og tímasetningar eru greinilega ekki alveg á hreinu en við bara bíðum þolinmóð:  

Orkugangan  er almennings skíðaganga sem verður haldin laugardaginn 11. apríl kl. 10:00 og hefst gangan við Kröfluvirkjun í Mývatnssveit. Gengnir verða 60 km og er þetta því lengsta skíðagangan hér á landi.

Mývetningur Íþrótta og Ungmennafélag og Björgunarsveitin Stefán eru framkvæmdaaðilar göngunnar. Gengið verður að mestu um ósnortið land þar sem sjá má margar náttúruperlur sem og svæði sem jarðskjálftar og eldsumbrot hafa mótað og má víða sjá merki um þá orku sem enn býr í þessu svæði.

Leiðin verður troðin fyrir þátttakendur og lagt verður að minnsta kosti eitt spor alla leið. Drykkjarstöðvar verða með  reglulegu millibili þar sem boðið verður upp á orkudrykki og súkkulaði. Allir fá svo súpu og brauð eftir að komið er í mark.

Þátttökugjald er xxxx kr. og er innfalið í því aðgangur að Jarðböðunum við Mývatn eftir gönguna og lokahóf með léttum veitingum sem hefst kl. þar sem veittar verða viðurkenningar og dreginn verður út einn heppinn þátttakandi sem hlýtur utanlandsferð að eigin vali í vinning. Skíðasvæðið við Kröflu verður opið fram eftir degi en þar er togbraut og góð aðstaða til skíðaiðkunar.

Nægt gistirými er í sveitinni og eru sumir ferðaþjónustuaðilarnir með „Orkugöngutilboð“ þar sem í boði er helgarpakki með gistingu og fæði á góðu verði.

Allar nánari upplýsingar og skráning er hjá Upplýsingamiðstöð staðarins í síma 464 4390 eða í netfangið info@visitmyvatn.is og einnig í orkuganga@visitmyvatn.is


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband