Færsluflokkur: Bloggar

Ekki sporað í Bláfjöllum í dag.

Var að tala við Magnús í Bláfjöllum, farið er að snjóa en krapaelgur um allt og t.d. ekki fært að lyftunum, því er vonlaust að leggja spor í dag. Stefnum enn að Íslandsgöngunni á laugardaginn, fylgist því með fréttum á síðunni næstu daga.

Fór í Kringluna-bílastæðahúsið 06-07 í morgun, þurrt og fínt en drep leiðinlegt að elta sjálfan sig og vona ég að fleir mæti þar næstu morgna, það er þrifalegra en við Holtagarða þó hringurinn þar sé tvöfalt lengri.

Þóroddur F.


Ekkert færi í Bláfjöllum

Kíkti í Bláfjöll í dag.  Hiti ca. 3 gráður og 10-12 m/s vindur.  Fór frá neðra stæði upp með hliðinni upp gilið og  að efsta hluta ljósabrautar.  Þoka var og mjög litið skygni þ.a. ég lagði ekki í heiðina.

Það er ennþá nógur snór eftir þarna uppfrá en mjög blautt og morkið sérstaklega niðri við bílastæðin, og meðfram Leirunni en Leiran sjálf er öll einn krapaelgur.  Heldur skárra þegar kom upp í gilið og mögulega mætti gera nothæfa braut með troðara upp gilið og upp á heiði.

Líklega er samt vænlegast að veðja á hjólaskíðin þar til aftur frystir.

Kveðja

Siggi


Hjólaskíðafæri á stígunum !

Fór í gærkvöldi frá Víkinni yfir á Ægissíðu.  Smáklaki í nokkra metra við Víkina og aftur við brúnna en annars eru stígar klakalausir en mikill sandburður og eitthvað af möl í bland auk pollanna sívinsælu.  Vel nothæft samt meðan ekki gefur á skíðin.

Hefur einhver kannað aðstæður í Bláfjöllum nýlega?  Það getur vel verið hægt að ganga þar, sérstaklega uppi á heiðinni þó ekki sé gerð braut.  Líklega komið hið besta klísturfæri eftir rigningar og hláku undanfarið.

 

Kveðja

Siggi 


Hefur einhver farið á skíði í dag?

Ef einhver hefur látið reyna á skíðafærið í dag, vinsamlega setja inn upplýsingar hér.   Skv. skidasvaedi.is er lokað í Bláfjöllum vegna krapa en hvað með Heiðmörkina, er einhver snjór eftir þar?

Kv

Siggi 


Frábært kvöld í Bláfjöllum

Var að koma úr Bláfjöllum. Þar var veður og spor einsog best gerist. Slatti af Ullungum og öðrum á skíðum. Hitti Skarphéðinn sem var búinn að ganga 50km og blés ekki úr nös, lofar góðu fyrir Vasa.

Eiríkur


Heiðmörk komið spor

Tilkynning um skíðabrautir

Verið er að troða gönguskíðabrautir í Heiðmörk, eða frá Elliðavatni

og upp á Elliðavatnsheiði.

Kveðja úr Heiðmörkinni.

Unnur

Skógræktarfélag Reykjavíkur


Lágarenningur í Bláfjöllum- ekki komið spor í Heiðmörk

Var að tala við Ómar í Bláfjöllum og þar er dálítill skafrenningur og hætt við að sporin fyllist en vindur útilokar ekki göngu, bara meira puð sem er af hinu góða.

Var að tala við Óla í Heiðmörk ekki vannst tími til að fara með spora í dag en verður væntanlega gert á morgun ef ekki verður hlýrra en nú, frétt af því mun koma á heimasíðu Skógrf. Rvík og hér um leið og þær berast. Nægur snjór er í Heiðmörk og best að drífa sig uppeftir.

Þóroddur F.


Meira fjör

Mér finnst að við Ullungar ættum að vera duglegri við að tjá okkur á blogginu.

Nú veit ég að vísu ekki hvernig stjórnin hefur hugsað þetta en mér finnst þetta vera kjörinn vettvangur fyrir hinn almenna félagsmann til að koma skoðunum sínum á framfæri. Ég sé ekki betur en nánast allt sem birtist hér séu tilkynningar frá stjórn.

Ég er til dæmis að tala um það að fólk upplýsi um aðstæður þar sem það hefur verið að ganga, hvort sem þær eru frábærar eða ómögulegar. Það munar miklu þegar maður er að spá í hvert skuli halda að hafa upplýsingar frá fólki sem er jafnvel nýkomið af svæðunum. Því einsog við vitum öll er ekki endilega víst að bestu aðstæður séu alltaf í Bláfjöllum. Þær geta allt eins verið á Vífilsstaðavelli, Korpúlfsstöðum eða í Heiðmörk ,svo einhverjir staðir séu nefndir.

Svo er líka bara ef fólk hefur góðar hugmyndir eða fróðleik sem ástæða er til að koma á framfæri.

Tek fram að ég er ekki að skamma stjórnina sem hefur verið ótrúlega frísk og komið mörgu í verk þennan stutta tíma sem félagið hefur lifað.

Áfram Ullungar, meira líf í bloggið.

Kveðja Eiríkur


Íslandsgöngunni - Bláfjallagöngunni frestað til 23. febrúar

Að höfðu samráði við SKÍ hefur Íslandsgöngunni-Bláfjallagöngunni verið frestað til laugardagsins 23. febrúar. Veðurhorfur og breytingar á snjóalögum, krapaelgur, eru þess eðlis að ekki er hægt að treysta því að hægt verði að halda gönguna svo vit sé í á sunnudaginn. Vegna þeirra sem hugðust koma utan af landi þarf einnig að taka þessa ákvörðun með góðum fyrirvara. Skv. uppl. frá Daníel Jakobssyni SKÍ verður um næstu helgi, það er 16.-17. feb., bikarmót á Ólafsfirði og eina helgin sem er laus fram að Landsmóti er helgin 23.-24. febrúar og fá væntanlegir Vasafarar vonandi góða upphitun með keppni þá helgi.

Þóroddur F.


Íslandsgöngunni - Bláfjallagöngunni frestað til sunnudags

Íslandsgöngunni sem Ullur á að sjá um og var fyrirhuguð á laugardaginn í Bláfjöllum hefur verið frestað til sunnudags þar sem veðurútlit er afleitt á laugardaginn. Gangan verður að öðru leiti eins og auglýst hefur verið og hefst kl. 13:00 á sunnudaginn. Gott væri að fá nokkra starfsmenn til viðbótar, látið Sigurð vita í síma 820 6820 og látið Maríu vita í síma 820 0009 ef þið viljið koma með köku/tertu í kaffiboðið. 

Kveðjur Þóroddur F. og  Anna Kr.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband