Færsluflokkur: Bloggar

Gleðilegt ár allt skíðagöngufólk

Á þessum tímamótum er mér það efst í huga.... Nei annars, læt stjórnmálamönnunum eftir að skrifa á þessum nótum.

Veðurguðirnir voru skíðafólki hliðhollir á liðnu ári og engin spurning held ég að þeim fjölgaði sem fóru að stunda skíðaíþróttina og þá ekki síður göngu en alpagreinar. Snjóalög í haust vöktu líka væntingar um að nú væri tími okkar skíðagöngufólks kominn en umhleypingar hafa skemmt svolítið fyrir, alla vega hér á SV-horninu. Það á hins vegar að herða okkur og hvetja til dáða þegar göngufæri gefst, margir eru duglegir að skokka og í ræktinni og mæta án efa öflugir þegar að fyrstu Íslandsgöngunni kemur á Akureyri í lok janúar.

Vonir standa til að áður en Íslandsgangan fer fram í Bláfjöllum, 14. febrúar, verði Ullur búinn að fá aðstöðu í sérstöku húsi í Bláfjöllum, sem verður reynda ekki komið á endanlegan stað fyrr en næsta sumar.

Gleðilegt ár og sjámst sem fyrst á gönguskíðum.

Þóroddur F.

 


Gott gönguskíðafæri í Bláfjöllum

Formaðurinn er staddur í göngubrautinni í Blafjöllum þessa stundina og segir færið frábært. Brautin er um 3 km. Logn en dálítið blint. Hann hvetur alla að koma og taka á því. Spáð er verra veðri á morgun og næstu daga.

Allir í Bláfjöllin

Það var skemmtilegru hringur í Bláfjöllum í gær sem Hólmfríður Vala mældi 3,3 hann var lagður aðeins upp í brekku og upp í gilið svo það var tilbreyting, puð upp ef maður vildi og rennsli með góðu álagi á lærin niður. Miðað við veðurhorfur núna í morgunsárið á ég ekki vona á öðru en að það verði lagður sami eða svipaður hringur eða jafnvel lengra upp á heiði en margt fólk tróð spor þangað uppeftir og var það djúp slóð í mjöllinni.

Það sýndi sig í gær að miðað við þykktina á lausamjöllinni er æskilegt að það sé troðin sama leið dag eftir dag svo hún þjappist. Á köflum sem voru nýir í gær sukku stafirnir 10+ sentimetra niður og gerði það erfitt fyrir að taka t.d. tvöfalt staftak, þessu munum við koma á framfæri við Jón troðara sem er annars að gera fína hluti. Hlákan sem spáð er gerir vonandi ekki annað en að þjappa snjódyngjuna svo frís hún og færið verður ennþá betra í framhaldinu.

Allir Ullungar á skíðin, munið að við ætlum að fjölmenna í Íslandsgöngurnar, við verðum einnig með Reykjavíkurmót og Ullungamót í vetur.

Því má bæta við að ég skrapp í Heiðmörk á heimleiðinni í gær, þar er nægur snjór en ótroðið og var ekki beinlínis mikið út úr göngunni að hafa annað en ánægjuna í frábæru umhverfi.

Þórodur F.


Demantfæri í Bláfjöllum

Það var alveg frábært færi í Bláfjöllum áðan og hefur bætt mikið á snjóinn síðan á sunnudaginn og í raun hægt að ganga hvert sem er. Sporið var reyndar í styttra lagi en það helgaðist af því að það var skafrenningur og ekkert skyggni við gilið þegar sporið var lagt, annað sporið var á köflum horfið kl. 17 þegar ég fór af stað. Nú er bara að vona að veðurguðirnir verði okkur hliðhollir og þá verður frábært í fjöllunum um helgina og mun lengd og lega sporsins ráðast af veðri því nægur er snjórinn.

Þóroddur F.


Fínt spor í Bláfjöllum

Það var frábært í Bláfjöllum í dag, kalt en blankalogn, og þetta líka fína spor um leirurnar. Fólk gekk líka alveg inn á heiðina og sagði að þar væri nægur snjór.

Allir sem við hittum voru alsælir, og þakka félagsmönnum í Ulli kærlega fyrir að vera byrjaðir að ýta á brautarlagningu um leið og snjóalög leyfa.

 


Fréttir úr Bláfjöllum í kvöld

Fór í fjöllin. Gekk af stað í spori rúmlega kl. fimm í mokandi hríð, alveg frábært, sporið hvar og eftir fyrsta hring sá ég ekki sporin mín nema á stöku stað. Svona á þetta að vera eftir alla böl... hlákuna. Svo fór að skafa og það var bara enn meiri snjósöfnun í sporin, húrrrrrra. Aðstæður verða vonandi frábærar fyrir þá sem komast á morgun (en ég verð ekki í þeim hópi). Ég verð að koma því að, að aðgerðir okkar í haust þegar við hófum að hreinsa grjót af sporsvæðinu og merkja það með stikum sannaði sig núna 100% og líklega hefði ekki verið hægt að leggja sporið nema þessi aðgerð og síðan vinna Bláfjallamanna til viðbótar, hefði komið til. Sama gildir um snjógirðinguna. Miðað við grjót sem stóð uppúr melnum til hliðar við hana hefði hringurinn ekki verið sporaður með troðara ef snjósöfnunin frá girðingunni hefði ekki verið til staðar. Svo einfalt er þetta, 10 m langur girðingarstubbur sannaði sig. Takk fyrir allir sem lögðu hönd á plóginn og NÚ ER AÐ MÆTA OG NOTA SNJÓINN.

Annað mál er að ég hitti menn á vélsleða sem voru að leita að jeppa sem skilinn var eftir ofan við gilið á göngusvæðinu, með brotinn öxul, um síðustu helgi. Þeir rötuðu reyndar ekkert á svæðinu og höfðu óljósa lýsingu á staðsetningu bílsins, eftir þvæling vestur um hraun komu þeir til mín aftur og benti ég þeim á að fara upp gilið og þar var bíllinn. Ég hefði auðvitað ekki átt að hjálpa þeim að finna bílinn því ég legg til að þegar starfsmenn skíðasvæðisins koma þangað á morgun geri þeir bílinn upptækan ef þeir hafa ekki náð að gera við. Bíllinn er á bannsvæði í fólkvanginum. Bíllinn verði svo seldur hæstbjóðanda á 3-4 milljónir sem renni til skíðagöngumála á svæðinu. Ég mætti líka tveimur jeppum þegar ég kom uppeftir og slóð eftir þá var frá Suðurgilsplaninu og alveg að skíðasporinu. Annar þeirra, svartur Willis, stóð svo í vekantinum ofan við Sandskeið, eitthvað lasinn, þriðji bíllinn, svartur pickup af stærstu gerð var líka á Bláfjallaveginum en alveg niðri við Sandskeið og mannskapur að gera við hann þegar ég fór heim rúmlega sjö. Ég vil benda jeppamönnum á að láta það vera að aka utan vega í Bláfjallafólkvangi því ég er sannfærður um að það er Ullur, sá ása sem Skíðagöngufélagið Ullur heitir eftir, sem stendur nú vörð um svæðið og lætur þessar blikkbeljur hrynja niður. Fyrir utan það eru ökumennirnir að fremja lögbrot og ég er viss um að þeir geta lesið á skiltin sem eru á svæðinu.

Þóroddur F.


Bláfjöll, fö. 12.12. troðið spor kl 14 og verður viðhaldið um helgina.

Jæja loksins spor á ný og allir í fjöllin. Sjáumst um kl 17 með höfuðljósin.

Þóroddur F.


Bláfjöll í morgun, sunnud. 7.des.

Skrapp upp í BLáfjöll í morgun, éljagangur og mjög blint. Nægur snjór til að fara á gögnuskíði frá bílastæðinu við Suðurgil. Krapatjörn er á leirunni og lentu meðlimir hundabjörgunarsveitarinnar aðeins í því að stíga niður í krapann, það er þeir sem ekki voru á skíðum. Gekk hringinn góða en tróð ekki neitt almennlegt spor þars sem snjókoma var drjúg. Ef veður leifir ætti að vera hægt að leggja spor eftir helgina og munu uppl. um það vonandi koma fram á heimasíðu skíðasvæðanna.

Þóroddur F.Þ.


Og nú tilboð á höfuðborgarsvæðinu

Skíðasvæðin á höfuðborgarsvæðinu bjóða  æfingakrökkum um allt land sömu kjör og æfingakrökkum hér fyrir sunnan.

Árskortið kostar 6.500.- kr.


Fleiri tilboð

Eftirfarandi tilboð kom frá Dalvíkingum:


Vertarkort á skíðasvæðið á Dalvík.

Öllum iðkendum í aðildarfélögum Skíðasambands Íslands býðst að kaupa vetrarkort á skíðasvæðið á Dalvík. Fullorðnir, fæddir 1991 og fyrr greiða 9.000 kr. og börn 5.000 kr.

Þeir sem hafa áhuga, þurfa að geta sýnt fram á að þeir séu skráðir félagar í viðkomandi aðildarfélagi.

Skíðafélag Dalvíkur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband