15.5.2009 | 14:44
Skíðavertíðin búin, en sumarið framundan.
Sælt veri fólkið.
Ég ætla að byrja á að þakka fyrir skemmtilega samveru hjá Völu og Daníel um daginn.
Flott slútt á skíðavertíðinni sem vonandi verður að hefð í starfseminni.
Nú er sumarið framundan og eflaust eru flestir búnir að pakka saman brautaskíðunum, áburðarlagernum og gallanum.
Svo er bara að láta sig hlakka til næsta vetrar og hafa stór persónuleg fyrirheit og markmið varðandi hann.
Aftur á móti er núna frábær tími framundan. Heillandi aðstæður fyrir fjallaferðir, endalaus sumarkvöld til að hlaupa, búið að sópa stígana fyrir hjólaskíðin og svo bíða allar gönguleiðirnar á fjöllum.
Eigum við ekki að virkja þennan frábæra hóp sem Ullungar eru að verða til frekari afreka yfir sumarið?
Nú væri því gaman að vita hverjir hafi áhuga á eftirfarandi atriðum:
A. Sumarferðir á hærri fjöll og jökla á skíðum. Nú eiga ýmsir hér ferðaskíði og búnað til slíkra ferða og því tilvalið að hóa saman fólki. Sjálfur er ég t.d. búinn að plana tjaldferð á Drangajökul í júní og margt fl. í deiglunni.
Aðrrir staðir sem geta verið skemmtilegir eru t.d. Geitlandsjökull, Eyjafjallajökull, Tindfjallajökull og Hekla sem eru allt saman áfangastaðir í hóflegri fjarlægð.
B. Hlaup. Sumir hér setja markið á Laugavegshlaupið. Aðrir halda sig í byggð og stefna á Reykjavíkurmaraþonið. Vilja einhverjir stefna á hlaupahópa og jafnvel mynda lið í Reykjavíkurmaraþoninu? Getur fólk sem býr á svipuðum slóðum hóað sig saman til að hlaupa með stuttum fyrirvara?
C. Reiðhjólin. Sjálfur nota ég hjólið þegar ég er orðinn aumur eftir mikil hlaup. Nú erum við með eitt stk. "hjólagúru" í félaginu sem gæti kannski verið hægt að plata til að segja okkur meðalskussunum í því sporti eitthvað til.
D. Fjallgöngur. Fjallgöngurnar finnst mér alltaf vera næsti bær við skíðagönguna. Er hægt að fá saman fólk hér í skemmtilegar göngur? Bæði styttri og lengri ferðir koma til greina. Þess vegna að taka góðann sprett á Þverfellshornið eh. kvöldið, þar sem við skríðum lafmóð upp á topp með blóðbragð í munni og höfum vonandi öll sett persónuleg met á þeirri leið og líka hægt að stefna á lengri en rólegri göngur.
Látið í ykkur heyra og komið með hugmyndir hvað við getum gert til að vera áfram í topp formi, þó snjórinn sé farinn úr Bláfjöllum. Svo stefnum við vonandi á góðar vinnurferðir þangað þegar líður á sumarið.
kv. Árni Tr.
Athugasemdir
Tek undir með Árna að veturinn var frábær og hvetur til dáða næsta vetur. ´Wg hef hugsað mér að ganga á fjöll í sumar og skíða á jöklum og læt vita facebook hvað er framundan. Það sem eftir er mánaðarins verð ég erlendis og mun .et..v segja eitthvað frá því á fésbókinni.
Þóroddur F. Þ. (IP-tala skráð) 15.5.2009 kl. 22:49
Já, fjallgöngur eru næsti bær við skíðagönguna. Ef einhver á ferðaskíði aukreitis fyrir dverg eins og mig, þá er ég til í að prófa einhvern jökul. Ég á þannig skó. Drangajökull er draumajökullinn og á langtímadagskrá, svona einhvern tímann í þessu lífi. Hvort sem um er að ræða fjallgöngu eða ferðaskíðaferð, þá henta mér frekar lengri og rólegri göngur, a.m.k. rólegri göngur! Ekkert helvítis blóðbragð og lofthræðsla! En ég er æst í að prófa ferðaskíði, er bara vön svigskíðum og gönguskíðum. Ég myndi ekki lifa af Laugavegshlaup og ætla ekki að gera neinum þann grikk að mynda lið í Reykjavíkurmaraþoni. Held mig bara við mína 10 km. í Reykjavíkurmaraþoninu. Hins vegar væri ágætis spark í rassinn að komast í hlaupahóp Ullunga, þó ekki væri nema til að leggja af stað á sama tíma. Það veitir visst aðhald. Er alltaf á leiðinni í Glitnis hlaupahópinn, sem er frábær hlaupahópur sem mætir mismunandi þörfum. Hefur hingað til reynst mér vel. Ég væri til í hjólaþjálfun, ef hún er ekki þeim mun kvikindislegri. Þá á ég ekki við hjólaskíði, en eitt stykki Skarphéðins-lærbrot jarðaði þá löngun fyrir lífstíð.
Niðurstaða: Fjallgöngur, ferðaskíði, hlaupahópur, reiðhjól.
Árni! Það eru örugglega sárafáir sem fara inn á skíðasíðu í sumarsólinni, það var t.d. algjör tilviljun að ég hrökk hingað inn. Ég ímynda mér að tölvupóstur Ullunga myndi miklu frekar svínvirka, fólk er alltaf að gramsa í tölvupósti.
P.S. Ég er meira en til í Vesturgötuhlaup, ætlaði að vera búin að skrá mig í hálfa vegalengd. Það er á Vestfjörðum (nema hvað) og í GEGGJUÐU umhverfi! Ekkert upp í mót, að ég held, en eins fjarri borgarskarkala og hugsast getur. Svo er náttúrulega líka Óshlíðarhlaupið milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar, en þá er maður nær sjoppunum. Ég held að nánari upplýsingar sé að finna á vesturgata.is eða bara á hlaup.is
Björk Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 27.5.2009 kl. 01:47
Ég kíki nú alltaf hingað inn, þó að það sé sumar... Held að ég sé að bíða eftir því að einhver segi mér að mæta einhvers staðar og hreyfa mig! Ég er a.m.k. alveg til í hlaupa- og hjólaæfingar (væri gaman að prófa að láta segja sér eitthvað til í hjólasporti, tek undir það með Árna) og ég held bara hjólaskíðin líka - verður maður ekki að láta sig hafa það...? Þetta er víst svo ansi hollt, á meðan maður ekki slasar sig eða aðra...
Hrefna (IP-tala skráð) 27.5.2009 kl. 22:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.