23.3.2009 | 07:42
Buchgangan 2009
Buchgangan 2009 fer fram næstkomandi laugardag, 28. mars. Gangan er liður í Íslandsgöngu Skíðasambands Íslands og fer fram á Reykjaheiði fyrir ofan Húsavík. Keppni hefst klukkan 14:00, en gangan fyrir 12 ára og yngri hefst kl 13:30.
Boðið er upp á fjórar vegalengdir, 20 km, 10 km, 5 km, og 1 km fyrir 12 ára og yngri. Að móti loknu gefst fólki kostur á að fara í sturtu í íþróttahúsinu og þar fer einnig fram verðlaunaafhending, ásamt því að boðið verður upp á veitingar. Hægt verður að skrá sig á netfanginu nausti@simnet.is Þetta netfang er varið fyrir ruslrafpósti, þú þarft að hafa Javascript virkt til að skoða það eða í síma 898-8360 (Sigurgeir) og 660-8844 (Kári Páll).
Einnig er hægt að skrá sig á staðnum frá kl.12:00 til 13:15. Þátttökugjald er kr. 2.000 fyrir 16 ára og eldri og kr. 500 fyrir 15 ára og yngri.
Keppt verður í eftirfarandi flokkum:
Íslandgangan 20km: Karlar og konur 16-34 ára, 35-49 ára og 50 ára og eldri.
10 km: Karlar og konur.
5 km: Karlar og konur.
1 km: Börn 12 ára og yngri.
Athugasemdir
Stefni á Buchgönguna um næstu helgi og þætti gott að vita um fleiri sem fara. Gerður Steinþórsdóttir, Ullungur, Reykjvík, s. 8648944/5513603
Gerður Steinþórsdóttir (IP-tala skráð) 23.3.2009 kl. 10:59
Ég fer ekki, verð að vinna þessa helgi. Held bara áfram að hlakka til Fossavatnsins!
Hrefna (IP-tala skráð) 23.3.2009 kl. 18:16
Kemst ekki norður þessa helgi. Ætla að mæta í Fossavatnið.
Gangi ykkur vel á Húsavík.
Kveðja Guðmundur Arnar
Guðmundur Arnar (IP-tala skráð) 25.3.2009 kl. 21:54
Buchgangan 28. mars 2009 og stutt æviágrip Buch, sem stofnaði skíðaskóla á Húsavík.
Það var rok á Reykjaheiði fyrir ofan Húsavík og því gangan færð í Aðalhraun fyrir sunnan flugvöllinn, en hraunið er kjarri vaxið. Þar hafði verið lögð 5 km braut. Þátttakendur voru alls 52 og tóku flestir þátt í 20 km, eða 32 talsins. Fjórir Ullungar voru mættir; Þórhallur Ásmundsson, Vilborg Guðmundsdóttir og Gísli gleðigafi Óskarsson, auk mín. Eiríkur skipstjóri Sigurðsson, sem er Húsvíkingur, var reyndar skráður Ullungur, en ekki alveg sáttur við það. - Töluvert frost var en í hrauninu var gott skjól og brautin glögg.
Á eftir var kaffi og meðlæti í íþróttahúsinu og þar fór fram verðlaunaafhending. Sævar Birgisson frá Ísafirði var sigurvegari. Ég spurðist fyrir um Buch sem gangan er kennd við. Hann var Norðmaður og hét Nikulas Buch (1766 - 1806). Hann kom til Íslands um 1790 þegar fyrstu hreindýrin voru flutt hingað til lands. Hann settist að á Húsavík og stofnaði þar fyrsta skíðaskóla landsins. Þá sögu heyrði ég að hann hefði farið upp á Húsavíkurfjall og rennt sér niður af því. Húsvíkingar undruðust mjög að hann skyldi koma standandi niður. Árið 2005 var ákveðið að ein af Íslandsgöngunum yrði á Húsavík. Þá var það að Vilhjálmur Pálsson íþróttakennari kom með þá hugmynd að gangan yrði kennd við Buch.
Þá er Fossavatnsgangan eftir en hún er hápunktur Íslandsgöngunnar.
Gerður Steinþórsdóttir (IP-tala skráð) 30.3.2009 kl. 09:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.