8.2.2009 | 17:54
Tímamót í sögu Ulls og fjör í sporinu í Bláfjöllum
Þau tímamót í sögu Ulls urðu í dag að við fengum lykil að húsi í Bláfjöllum sem við munum hafa umráðarétt yfir og opna fyrir öllu skíðagöngufólki. Húsið er á bílaplaninu gengt svonefndu gönguplani og verður þar í vetur. Nánar síðar um opnunarhátíð en í húsinu mun verða aðstaða til að smyrja á skíðin í Bláfjallagögunni á laugardaginn kemur.
Ég fór útí sporið um hádegi og var nokkur blástur og skafið í það á köflum en lagaðist við göngu og fór ég hringinn frá gönguplaninu og efst upp í gilið. Ég var á leið yfir leiruna þegar vélsleði kom aftan að mér og þaut framúr, tveir menn á honum og eftir sporinu á tuga metra kafla framan við mig svo hvarf hann upp gilið. Ég hringdi í stjórnstöð Blá. og þar var sett í gang áætlun um að ná tali af ökumanninum. Hring síðar var ég á svipuðum stað þegar sleði með einum manni kom eftir sporsvæðinu niður gilið ég og tveir aðrir stöðvuðum ökumanninn. Ég var alveg brjálaður og hellti mér yfir hann og hinir bættu við. Skírðum hvað hann væri að gera auk þess sem hann væri í fólkvangi og á vatnsverndarsvæði þar sem akstur utan vega væri bannaður. Hann sagði mér að vera ekkert að æsa mig hann vissi ekkert um þetta og væri þarna í fyrsta sinn. Ég jós yfir hann áfram og þegar hann gaf í danglaði ég með stafnum í bakið á honum, enda alveg brjálaður. Ef þið heyrið einhvern tíman sögur af þessu þá var það ég sem barð helv. manninn. Svo kom hann aftur neðan frá bílastæði og var með snjóbretti, þá sá ég að hann var á númerslausum Polaris og lét stjórnstöð vita og Árni öryggisvörður fór og náði tali af honum uppi á heiði. Nokkru síðar var ég á leið upp efstu brekkuna í gilinu og þá komu þessir tveir gaurar niðureftir aftur og snarbeygðu sleðanum vestur fyrir hólinn og brenndi niðurúr, ég kláraði brekkun og æddi svo niður á plan, það hreinlega bráðnaði í sporinu undan mér slíkur var hraðinn á Ulli. Vélsleðakapparnir vissu greinlega hvað kynni að gerast og þegar ég hljóp upp á planið reikspóluðu þeir í burtu á hvítum sendibíl. Þeir munu örgglega ekki láta sjái sig hér aftur því þá er ekki víst að verði mikill vindur í dekkjunum hjá þeim til heimferðar.
Þóroddur F.
e.s. er aðeins að róast og náði 18 km því ég varð náttúrulega að ganga þar til þeir komu niður.
Athugasemdir
Já, þeir eru illþolandi þessir sleða og jeppamenn. Hafa vel yfir 90% af landinu til að leika sér á, en geta svo ekki virt þessi örsmáu svæði ætluð mótorlausu útivistarfólki sem vill fá að vera í friði fyrir þeim.
Hér er nú smá (kannski aðeins meira en smá) sem ég skrifaði fyrir nokkrum árum. Tími til að blása í hann lífi að nýju og koma í birtingu í fjölmiðlum.
Vélsleðana burt!
Tilefni þessarar greinar er ágangur vélsleðamanna á skíðasvæðum Ég vil strax taka það fram, að sjálfur er ég unnandi allra vetraríþrótta. Hef farið fjölda ferða um hálendið á vélsleðum og hef því ekkert á móti þeim tækjum sem slíkum. Aftur á móti er löngu orðið tímabært að setja strangari reglur um notkun þeirra og umferð annarra vélknúinna ökutækja utan vega og í óbyggðum. Viðhorfin eru mörg en það þarf að taka tillit til þess að fjöldi fólks vill ferðast um landið án þess að eiga von á hávaðamengun og öðrum óþrifum og ónæði er fylgja umferð vélknúinna ökutækja. Afmarka þarf viss svæði þar sem leyfilegt er að fara um á slíkum tækjum og taka þarf hart á þeim brotum þegar menn fara um auða jörð til að komast á snjó. Eins og ástandið er í dag, þá er hægt að fara nánast um allt landið, án tillits hvort um er að ræða þjóðgarða eða friðlýst svæði svo fremi að menn aki um á snjó. Á ferðum mínum um hálendið hef ég séð ótal ummerki eftir það, þegar menn aka „frjálslega“ á milli snjóskafla.
Aðalumfjöllunarefni mitt í þessari grein er akstur vélsleða og jeppa umhverfis skíðasvæðin á höfuðborgarsvæðinu. Skíðasvæðið í Bláfjöllum er innan vatns-verndarsvæðis höfuðborgarsvæðisns og hefur uppbygging skíðaaðstöðunnar tekið mið af því. Allar framkvæmdir hafa verið unnar undir ströngu eftirliti og erfitt hefur reynst að fá leyfi fyrir uppgræðslu á svæðinu af ótta við að slíkt gæti mengað. Í gildi er bann við akstri utan vega. Þessar ástæður einar og sér ættu að nægja fyrir algjöru utanvegaakstursbanni á svæðinu. Önnur ástæða fyrir því að fylgja ætti umræddu banni enn harðar eftir er sú, að umferð slíkra tækja í námunda við skíðasvæðin veldur slysahættu. Í fyrsta lagi má nefna hættuna af beinum ákeyrslum á skíðafólk. Sem dæmi um slíkt vil ég nefna að sjálfur var ég á gönguskíðum í troðinni braut þann 17. mars sl. Veður var stillt en þokudumbungur grúfði yfir og því var skyggnið ekki sem best. Þetta var fyrsta helgin sem opið var þann veturinn. Skíðafólk hópaðist upp eftir og inn á milli voru vélsleðamenn að leik. Þeir héldu sig að mestu utan við sjálfar troðnu brekkurnar en voru aftur á móti mikið við gönguskíðabrautinar sem nýbúið var að troða. Nærri lá að stórslys yrði þegar vélsleðamaður brunaði fram af brekkubrún þar sem fjölskylda sat og var að borða nestið sitt. Það munaði innan við þrem metrum að hann hefði ekið inn í hópinn. Að auki skapast mikil slysahætta af því þegar vélsleðarnir (og jepparnir) aka í og yfir troðin skíðaspor. Skíðamaður á ferð getur fengið slæma byltu ef hann lendir óvænt ofan í slíkum förum, auk þess sem skemmdir á brautinni eru til ama. Annan jóladag sl. var ekki opinber opnunardagur í Bláfjöllum. Engu að síður var á svæðinu mikill fjöldi fólks sem kominn var til að prófa skíða- og brettabúnað sem það hafði verið að fá í jólagjöf.. Þennan dag þyrptust jafnframt vélsleðamenn á svæðið svo að slysahættan var geigvænleg. Vélsleðamenn brunuðu ítrekað á milli fólks og í kring um börn sem voru að leik á sleðum.
Starfsmenn í Bláfjöllum hafa tjáð mér að þeir hafi margsinnis reynt að kæra utanvegaakstur á svæðinu til lögreglu. Því miður hafa viðbrögðin verið fremur dræm. Svörin hafa oftast verið í þá áttina „Meiga þeir ekki vera þarna líka? Ha??“ og svo hefur lítið sem ekkert gerst. Þess má jafnframt geta um leið, að sleðamenn hafa notið of mikils umburðarlyndis á svæðinu. T.d. hefur það verið óátalið fram að þessu, að þeir séu fyrir neðan skíðasvæði Fram, við Draumadali og víðar. Jafnvel hafa verið haldin þar vélsleðamót. Þessi svæði eru engu að síður innan vatnsverndarsvæðisins og með þessari eftirgjöf hefur verið gefið fordæmi um að ekki beri að virða vatnsverndarsjónarmiðin.
Eins og ég tók fram fyrr í greininni, þá hef ég ekkert á móti vélsleðum sem slíkum. En einhvers staðar þurfa þeir sem vilja ferðast um á tveimur jafnfljótum, eða vilja ferðast um í friði og njóta kyrrðarinnar að eiga sín griðlönd. Ég vil fullyrða að nánst hvergi annars staðar í heiminum njóta ökumenn vélsleða og jeppa slíks frelsis sem hér. Því miður misnota sumir þeirra sér þetta frelsi. Það yrði á engan hátt brotið á rétti vélsleðamanna til að stunda sitt áhugamál, þó svo að litlum svæðum (t.d. skíðasvæðum, þjóðgörðum, friðlöndum og nokkrum náttúruperlum) verði lokað alfarið fyrir þeim og jeppamönnum. Vélsleðamenn hafa til dæmis helgað sér Jósepsdal. Þangað álpaðist ég eitt sinn á skíðum og sá að þar átti ég ekkert erindi án vélsleða. Ég tel það sjálfsagt að akstursíþróttamenn eigi sér sín griðlönd. Jósepsdalur er gott dæmi um slíkt svæði. Möguleikarnir til að ferðast og velja sér svæði til að leika sér á vélsleðum á Íslandi eru óendanlegir. Því er mér það óskiljanlegt hvers vegna vélsleðamenn sækja einmitt í þá litlu bletti sem skíðasvæðin eru. Er hér kannski á ferðinni sýningarárátta minni spámanna í hópi vélsleðamanna. Ég vona að slíkt sé og höfða ég því til ábyrgðarkenndar þeirra sem eldri eru og reyndari í sportinu með því að sýna gott fordæmi og innræta fyrir félögum sínum að svona eigi ekki að gera. Sá hópur vélsleðamanna sem stundar skíðasvæðin er því miður að skaða orðspor hinna sem stunda alvöru vélsleðamennsku. Jafnframt skora ég á lögreglu að sinna hér eftir beiðnum, sem henni berast frá skíðasvæðum þegar bregðast þarf við hættuástandi því, sem skapast þegar vélsleðamenn eru innan um skíðafólk. Við skulum því vona að löggæslumenn sýni vilja og dug, til að taka á málunum áður en stórslys verður.
Greinarhöfundur sinnir markaðs- og hönnunarstörfum og er áhugamaður um vetraríþróttir.
Árni Tryggvason (IP-tala skráð) 8.2.2009 kl. 20:46
Ég var á skíðum á sl. mánudag og sá þá hvar jepparnir höfðu farið eftir skíðasporinu. Þar sem ég er meðlimur í Ferðaklúbbnum 4x4 setti ég athugasemd inn á vefinn hjá þeim. Sjá http://www.f4x4.is/new/forum/default.aspx?file=umhverfismal/13437
Ef við erum með athugasemdir við hátterni jeppa- og vélsleðamanna er upplagt að setja þær inn á vefinn hjá jeppamönnum (www.f4x4.is) og Vélsleðamönnum (http://www.liv.is/) því þar eru oft líflegar umræður um umhverfismál. Einnig held ég að það væri gott ef forstöðumaður Bláfjalla myndi setja leiðbeiningar og athugasemdir inn á vefina. Ég er sannfærður um að þeir munu fara eftir þeim tilmælum sem settar verða fram.
Kveðja Sveinn G.
Sveinn Guðmundsson (IP-tala skráð) 8.2.2009 kl. 22:15
Já það er alltafsama sagan að 1-2 einstaklingar geta ekki farið að reglum og skemma fyrir öllum fjöldanum. Ég er sammála Sveini að stjórnendur í Bláfjöllum, stjórn Bláfjallafólkvangs og stjórn vatnsverndar höfuðborgarsvæðisins eigi að upplýsa betur um mörk svæða og hvaða reglru þar gilda og mun ég reyna að koma því á framfæri við þá aðila. Éghef þá reynslu af 4x4 að það eru ekki til duglegri aðilar í því að koma skikki á akstur utan vega.
Þóroddur F.
Þóroddur F (IP-tala skráð) 8.2.2009 kl. 22:44
Tek undir þessa umræðu. Ég verð að viðurkenna að mér finnst ekki mikill áhugi frá staðarhöldurum þarna á þessu máli. Mér finnst það heyra til undantekninga ef maður mætir ekki vélsleða eða bíl í sporunum.
Ég hef ekki orðið var við það að Bláfjallamenn séu neitt að reyna að gera í þessu. Amk. hafa þeir ekki sett upp fleiri skilti eða sent menn til eftirlits.
Hvet þá til þess.
Daníel
Daníel Jakobsson, 9.2.2009 kl. 09:51
Mikið skil ég reiði formannsins. Það er með öllu óþolandi að búa við þessa vélsleðamengun á Bláfjallasvæðinu. Fyrir nokkrum árum var ég ásamt fjölda manns á göngu uppá Hvannadalshnjúk. Þá komu brunandi vélsleðar á rétt við röð fólks á leið á tindinn. Þar lá við stórslysi. Vélsleðamenn hafa nægt rými og þurfa ekki að ógna neinum ef þeir velja sér svæði utan fólkvangs. Hreinsum Bláfjöllin af þessum ósóma.
Skarphéðinn (IP-tala skráð) 9.2.2009 kl. 10:09
Við þurfum að sjá til þess að bannskiltum verði fjölgað. Sett upp aftur skiltið við vegamótin neðan við Eldoborgargil, en það var tekið niður þega Golf-kynningin var í haust. Þar voru tvö áberandi jeppa-sleðabannmerki.
Að endingu þurfum við svo bara að vera með "almenn leiðindi" til að framfylgt verði utanvegaakstursbanni á svæðinu. Sjáum t.d. til þess að "undanþágan" til akstur norður af Elborgargili verði felld niður. Að leyfa akstur á hluta af "bannsvæðinu" er bara til þess að þessi hópur færir sig sífellt meira upp á skaftið.
En ástandið hefur verið skárra en það var fyrir nokkrum árum. Hér áður mátti alltaf bóka það að sjá bíla með vélsleðakerrur leggja á gönguplaninu, nokkrum sinnum á dag. Ég var virkur í röflinu gagnvart þeim og m.a. létum við Þorsteinn Hjaltason, þáverandi fólkvangsvörður útbúa límmiða sem voru settir á bíla sem voru þarna með vélsleðakerrur og ekki náðist að stoppa í tíma. Ég á enn nokkra slíka í mínum fórum og ég sá heila rúllu inni í Bláfjallaskála um daginn.
Sleðamenn hafa örugglega 95% af óbyggðum landsins til að leika sér á. Þeir hljóta að geta virt bann á nokkrum örlitlum blettum.
Árni Tryggvason (IP-tala skráð) 9.2.2009 kl. 11:12
Þegar ég fór á skíði í síðustu viku var sporið gjörsamlega handónýtt eftir vélsleða. Ég hafði samband við starfsmann í Bláfjöllum daginn eftir og það kom mér verulega á óvart hversu mikill uppgjafartónn var í honum varðandi þetta vandamál. Hann taldi s.s. ekkert hægt að gera í málinu. Ég kaupi það hins vegar alls ekki og tek undir það sem skrifað hefur verið hér að ofan þ.e. betri merkingar og stanslaus áróður og fín hugmynd með límmiðana. Svo þýðir ekkert að vera með einhverjar undanþágur, það er bara til að flækja málin, bara skýrar línur þ.e. þetta er bannað.
Birgir Gunnarsson (IP-tala skráð) 9.2.2009 kl. 13:35
Mér þykir leitt sem sleðamanni að heyra af því að sleðamann hafi verið að skemma fyrir ykkur. Ég var sjálfur á sleða á þessu svæði á sunnudaginn innan um tugi annarra sleða, fór frá Litlu Kaffistofunni uppí Jósefsdal og þaðan í fjöllin austan við skíðasvæðin, en að sjálfsögðu héldum við okkur frá skíðasvæðunum. Enda er það svo að félög vélsleðamanna ítreka árlega þann boðskap til félagsmanna, að halda sig frá skíðasvæðunum (síðast var frétt þessa efnis póstað þann 3. feb inná lexi.is). Söluaðilar vélsleðanna hafa líka reynt að benda á þetta sbr (6. feb'06 www.motormax.is)
Því miður ná svona félög/fyrirtæki aldrei til allra, en það myndi án efa stórbæta ástandið ef skilti yrði komið upp, t.d. við Litlu Kaffistofuna. Þó þekkingarleysi afsaki ekki að menn skemmi fyrir ykkur brautirnar, þykist ég þess viss að ef sleðamenn gerðu sér grein fyrir því að þeir væru að skemma, myndu þeir fúslega halda sig annarsstaðar.
Kveðja,
Gunnar
Gunnar Bjarnason (IP-tala skráð) 9.2.2009 kl. 22:07
Eins og ég sagði eru því miður alltaf einn og einn sem ekki kynna sér reglur og e.t.v. má ná til þeirra í gegnum fjölmiðla og að mínu mati væri best að félög vélsleðamanna og jeppamanna gerðu það á sama hátt og þau gera á sínum heimasíðum.
Þóroddur F.
Þóroddur F (IP-tala skráð) 9.2.2009 kl. 22:40
Bara að láta vita af því að ég kom af stað umræðum inni á einni vinsælustu síðu sleðamanna um þessi mál.
Sumir láta sér ekki segjast og finnst skíðamenn vera voða vondir við sleðamenn. En menn eru misvel gefnir og því miður er ég farinn að hallast að því að greindarskortur sé algengari hjá sleðamönnum heldur en gengur og gerist.
Sjá hér: http://spjall.lexi.is/viewtopic.php?pid=6666#p6666
Ég legg til að við í Ulli fáum forráðamenn annarra skíðafélaga á svæðinu til að leggja fram sameiginlega ósk um að vélknúin umferð (önnur en sú sem þjónustar starfsemina) utan vega verði alfarið bönnuð í fólkvanginum.
Árni Tryggvason (IP-tala skráð) 10.2.2009 kl. 22:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.