12.12.2008 | 20:57
Fréttir úr Bláfjöllum í kvöld
Fór í fjöllin. Gekk af stað í spori rúmlega kl. fimm í mokandi hríð, alveg frábært, sporið hvar og eftir fyrsta hring sá ég ekki sporin mín nema á stöku stað. Svona á þetta að vera eftir alla böl... hlákuna. Svo fór að skafa og það var bara enn meiri snjósöfnun í sporin, húrrrrrra. Aðstæður verða vonandi frábærar fyrir þá sem komast á morgun (en ég verð ekki í þeim hópi). Ég verð að koma því að, að aðgerðir okkar í haust þegar við hófum að hreinsa grjót af sporsvæðinu og merkja það með stikum sannaði sig núna 100% og líklega hefði ekki verið hægt að leggja sporið nema þessi aðgerð og síðan vinna Bláfjallamanna til viðbótar, hefði komið til. Sama gildir um snjógirðinguna. Miðað við grjót sem stóð uppúr melnum til hliðar við hana hefði hringurinn ekki verið sporaður með troðara ef snjósöfnunin frá girðingunni hefði ekki verið til staðar. Svo einfalt er þetta, 10 m langur girðingarstubbur sannaði sig. Takk fyrir allir sem lögðu hönd á plóginn og NÚ ER AÐ MÆTA OG NOTA SNJÓINN.
Annað mál er að ég hitti menn á vélsleða sem voru að leita að jeppa sem skilinn var eftir ofan við gilið á göngusvæðinu, með brotinn öxul, um síðustu helgi. Þeir rötuðu reyndar ekkert á svæðinu og höfðu óljósa lýsingu á staðsetningu bílsins, eftir þvæling vestur um hraun komu þeir til mín aftur og benti ég þeim á að fara upp gilið og þar var bíllinn. Ég hefði auðvitað ekki átt að hjálpa þeim að finna bílinn því ég legg til að þegar starfsmenn skíðasvæðisins koma þangað á morgun geri þeir bílinn upptækan ef þeir hafa ekki náð að gera við. Bíllinn er á bannsvæði í fólkvanginum. Bíllinn verði svo seldur hæstbjóðanda á 3-4 milljónir sem renni til skíðagöngumála á svæðinu. Ég mætti líka tveimur jeppum þegar ég kom uppeftir og slóð eftir þá var frá Suðurgilsplaninu og alveg að skíðasporinu. Annar þeirra, svartur Willis, stóð svo í vekantinum ofan við Sandskeið, eitthvað lasinn, þriðji bíllinn, svartur pickup af stærstu gerð var líka á Bláfjallaveginum en alveg niðri við Sandskeið og mannskapur að gera við hann þegar ég fór heim rúmlega sjö. Ég vil benda jeppamönnum á að láta það vera að aka utan vega í Bláfjallafólkvangi því ég er sannfærður um að það er Ullur, sá ása sem Skíðagöngufélagið Ullur heitir eftir, sem stendur nú vörð um svæðið og lætur þessar blikkbeljur hrynja niður. Fyrir utan það eru ökumennirnir að fremja lögbrot og ég er viss um að þeir geta lesið á skiltin sem eru á svæðinu.
Þóroddur F.
Athugasemdir
Þakka ykkur fyrir frábært brautryðjendastarf í Bláfjöllum.
Ég fór á gönguskíði upp í Bláfjöll í morgun í 10 stiga frosti og logni, frábæru veðri og skyggni. Það er ekki mikill snjór og troðna brautin er stutt, en ég fylgdi sporum sem lágu í suður upp á Heiðina Há og það var nægur snjór á milli hólanna. Þar kom ég fljótlega að strandaða bílnum og það vantar á hann annað afturdekkið. Bíllinn er alveg klárlega á bannsvæði. Ég skellti tveim myndum af honum á http://irsida.is/skidi/myndir/IMG_0166c.jpg og http://irsida.is/skidi/myndir/IMG_0186c.jpg til að sýna hvar hann er.
Óli St. (IP-tala skráð) 13.12.2008 kl. 18:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.